• Admin

   

Á Skjóli er verið að undirbúa aðventu og ýmsa skemmtilega viðburði sem haldnir verða innan húss í aðdraganda jóla. Íbúar baka smákökur með aðstoð iðjuþjálfa og þeir sem hafa bæði vilja og getu stendur til boða að búa til ýmiss konar jólaskraut. Við syngjum saman og sameiginlegar vistarverur íbúa verða skreyttar. Skammdegið verður lýst upp með ljósum og samveru. Mörg tækifæri skapast til þjálfunar íbúa og markmiðið er að viðhalda þeirri getu sem fólk hefur.

Aðstandendum er frjálst að skreyta vistarverur íbúa að vild og yfirleitt er það til að gleðja bæði auga og sál. Eina takmörkun viljum við setja og beinum þeim tilmælum til aðstandenda og velunnarra heimilisins að koma ekki með blóm eins og jólarósir og hýasintur vegna ofnæmis sem bæði íbúar og starfsmenn hafa.

Þeir sem eru farnir að huga að jólagjöfum geta haft bak við eyrað gagnsemi byltuvarnarsokka, en það eru sokkar með stömum sóla. Þá eru góðir skór sem sitja vel á fótum alltaf góð gjöf. Gott er að huga tímanlega að jólafötum íbúa, til dæmis hvort senda þurfi eitthvað í hreinsun.

Eins og staðan er í samfélaginu þegar þetta er skrifað er ekki vitað hvort eða hversu margir listamenn heimasækja okkur í desember, en á Skjóli starfar öflugur hópur hæfileikaríks fólks sem finnur leiðir og lausnir til að gleðja íbúa í aðdraganda jóla.