17. mars 2021

Kæru aðstandendur

Þar sem ný reglugerð um takmarkanir í samfélaginu, sem tók gildi í dag, felur ekki í sér neina stórvægilega breytingu eru heimsóknartakmarkanir enn þær sömu og síðast á heimilinu. Sóttvarnarhólf hafa verið lögð niður sem þýðir að íbúar hittast þvert á hæðir og geta notið félagsstarfs og farið í messur og söngstundir.

  • Heimsóknartími er á milli kl. 15:00 og 18:00 á virkum dögum.
  • Heimsóknartími er á milli kl. 13:00 og 18:00 um helgar.
  • Hámark tveir gestir í einu í heimsókn. Hver íbúi má þó fá fleiri en eina heimsókn innan heimsóknartímans.
  • Gestir í heimsókn dvelja í vistarveru íbúans og er EKKI heimilt að dvelja í sameiginlegum rýmum á meðan á heimsókn stendur. Fara stystu leið inn og stystu leið út.
  • Gestir eru beðnir um að gæta hófsemi, sér í lagi þegar um ræðir tvíbýli.
  • Ekki þarf að panta heimsókn fyrirfram en áfram þarf að skrásetja komu sína í hvert sinn á deildinni.
  • Gestur notar viðurkennda, einnota grímu að heiman, ekki margnota.
  • Gestir eru beðnir að gæta að 2ja metra reglunni og forðast beina snertingu við íbúa.
  • Gestir eru beðnir um að spritta hendur sínar í upphafi heimsóknar og fyrir og eftir snertingu við sameiginlega fleti, s.s. lyftuhnappa, hurðarhúna, handrið o.fl.
  • Gestir eru hvattir til að bjóða ástvinum út, í bíltúra og/eða heimsóknir. Gæta þarf að fjöldatakmörkun samfélagsins, að sjálfsögðu.
  • Líkt og áður, biðlum við til gesta að koma ekki hafi þeir einhver flensu- eða kvefeinkenni og/eða eru í sóttkví eða einangrun.

Það sem er þó nýtt er að sóttvarnarlæknir hefur kveðið svo á um að: „grímuskyldu starfsmanna við umönnun á hjúkrunarheimilum er almennt aflétt þegar bólusetningu íbúa og fyrri bólusetningu starfsmanna er lokið með þeirri undantekningu að starfsmenn verða að setja upp grímu ef ekki er hægt að halda 2ja metra nándarmörk við gesti eða íbúa sem ekki hafa fengið bólusetningu.“

Þetta þýðir að innan heimilisins þurfa starfsmenn ekki að nota grímu við störf sín, hafi þeir verið bólusettir. Þeir setja upp grímu í samskiptum við aðstandendur sé ekki hægt að viðhafa 2ja metra regluna. Þessi aflétting grímuskyldunnar mun án efa skipta sköpum varðandi umönnun og samskipti okkar við íbúana – sér í lagi fyrir heyrnarskerta íbúa og fyrir íbúa sem þjást af heilabilun. Fyrir það erum við þakklát.

Við gerum okkur jafnframt grein fyrir að mikilvægt er að viðhalda góðum sóttvörnum, sinna vönduðum handþvotti og þrifum og sótthreinsun snertiflata um leið og slakað er á grímuskyldu. Gæta skal ítrustu varúðar og ef minnsti grunur vaknar um smit hjá íbúa, gesti eða starfsmanni skulu grímur umsvifalaust settar upp.

Kærar kveðjur með þakklæti fyrir tillitssemina og samstöðuna.