Heilir og sælir kæru aðstandendur,

Í morgun fengum við góða gesti á Skjól, Heru Björk og Benedikt Sigurðsson. Þau sungu sig inn í hjörtu íbúa og starfsmanna og við lá að þeim yrði boðin búseta á Skjóli. Við getum ekki annað en glaðst yfir að viðburðurinn skuli hafa verið skipulagður í dag því að hér voru allir frekar kátir ennþá þegar fréttir bárust af hertum reglum um sóttvarnir.

Skjótt skipast veður í lofti líkt og þið hafið líklega öll heyrt og séð í dag. Í ljósi allra þessara nýju smita og nýja afbrigðisins þá verðum við að herða á heimsóknartakmörkunum. Við höfum þó séð það svartara og biðjum alla að halda ró sinni. Þessar takmarkanir gilda í 3 vikur.

Að gefnu tilefni viljum við minna aðstandendur á að halda sig heima finni þeir fyrir minnstu einkennum sem gætu bent til COVID-19 smits og fara í sýnatöku. Að sjálfsögðu skal halda sig heima ef þið eruð í sóttkví eða einangrun.

Heimsóknartakmarkanir eru eftirfarandi og breytingar eru undirstrikaðar:

Húsið verður áfram ólæst.

  • Heimsóknartími er á milli kl. 15:00 og 18:00 á virkum dögum.
  • Heimsóknartími er á milli kl. 13:00 og 18:00 um helgar.
  • Einungis tveir gestir mega koma í heimsókn í einu.
  • Börn yngri en 18 ára eru beðin um að koma EKKI í heimsókn.
  • Gestir eru í heimsókn í vistarveru íbúans og EKKI er heimilt að dvelja í sameiginlegum rýmum á meðan á heimsókn stendur. Fara þarf stystu leið inn og stystu leið út.
  • Gestir eru beðnir um að gæta hófsemi, sér í lagi þegar um ræðir tvíbýli.
  • Ekki þarf að panta heimsókn en áfram þarf að skrásetja komu sína í hvert sinn.
  • Gestur notar viðurkennda, einnota grímu að heiman, ekki margnota.
  • Gestir eru beðnir að gæta að 2ja metra reglunni og forðast beina snertingu við íbúa.
  • Gestir eru beðnir um að spritta hendur sínar í upphafi heimsóknar og fyrir og eftir snertingu við sameiginlega fleti, s.s. lyftuhnappa, hurðarhúna, handrið o.þ.h.
  • Áfram er heimilt að bjóða íbúum út, í bíltúra og/eða heimsóknir. Gæta þarf að fjöldatakmörkum samfélagsins, að sjálfsögðu.
    • Við minnum á nýjar fjöldatakmarkanir næstu þrjár vikurnar. 10 manns mega koma saman!

Sameiginleg ábyrgð okkar allra er mikil. Við munum viðhalda góðum sóttvörnum, sinna vönduðum handþvotti og hreinsa sameiginlega snertifleti reglulega. Ef minnsti grunur vaknar um smit hjá íbúa, gesti eða starfsmanni setjum við umsvifalaust grímurnar aftur upp.

Kærar páskakveðjur til ykkar allra.